15 Janúar 2016 10:05
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið Eyrúnu Eyþórsdóttur, lögreglufulltrúa og mannfræðing, til að sinna þróunarverkefni sem snýr að málum er varða hatursglæpi. Verkefninu er ætlað að auka þjónustustig lögreglunnar með því að leggja sérstaka áherslu á málaflokkinn. Eyrún mun leita í smiðju lögregluembætta nágrannalandanna sem hafa sinnt málaflokknum farsældlega um tíma.
Hvað er hatursglæpur?
Hatursglæpur er hugtak yfir verknað sem varðar almenn hegningarlög og er framin af ásetningi sem byggist á fullu eða hluta til á neikvæðum viðhorfum til brotaþola vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar viðkomandi. Einnig getur það talist til hatursglæps ef brotaþoli hefur viðkvæma- eða jaðarstöðu í samfélaginu og fyrrgreindur ásetningur er fyrir hendi.
Einkennandi fyrir hatursglæp er að gerandinn hefur lítil eða engin persónuleg tengsl við brotaþolann en hefur neikvætt viðhorf gagnvart ákveðnum „eiginleikum“ brotaþolans, t.d. litarhátt eða kynvitund hans eða gagnvart þeim „hópi“ sem brotaþolinn tilheyrir, t.d. þjóðerni. Til jafns er litið á það þegar gerandinn telur að brotaþolinn hafi ákveðna „eiginleika“ eða tilheyri ákveðnum „hóp“.
Hatursglæpur getur jafnframt beinst gegn hlut/eign. Dæmi um slíkt eru skemmdarverk sem unnin eru á byggingu til dæmis með að krota á eignina haturstákn eða –orð sem beinast að ofangreindum „hópum“.
Hatursglæpir hafa víðtækari afleiðingar en aðrir glæpir vegna þess þeir hafa áhrif á alla sem tilheyra þeim „hóp“ eða hafa þá „eiginleika“ sem gerandinn hefur neikvætt viðhorf gegn þó verknaðurinn sjálfur beinist að einum aðila. Jafnframt hafa hatursglæpir slæmar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni þar sem þeir stuðla að mismunun og jaðarsetningu fólks og þannig dregur úr möguleikum fólks til lýðræðislegra þátttöku í samfélaginu.
Hefur þú orðið fyrir eða orðið vitni af hatursglæp?
Hafðu samband með því að senda tölvupóst á: hatur@lrh.is
Eða hafið samband við Eyrúnu Eyþórsdóttur í síma 444-1000.