9 Júní 2022 20:13
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu boðaði til blaðamannafundar fimmtudaginn 9. júní þar sem fjallað var um rannsóknir og aðgerðir lögreglu gegn skipulagðri brotastarfsemi, en á fundinum var greint frá tveimur mjög umfangsmiklum rannsóknum í málaflokknum. Fulltrúar lögreglunnar á fundinum voru Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri, Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðstjóri ákærusviðs, Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn og Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Hér að neðan greinir frá því sem þau sögðu á blaðamannafundinum um rannsóknir og aðgerðir lögreglu.
HALLA BERGÞÓRA BJÖRNSDÓTTIR LÖGREGLUSTJÓRI:
„Ég vil byrja á því að bjóða ykkur öll velkomin á þennan blaðmannafund okkar, en hér á eftir ætlum við að fjalla um rannsóknir og aðgerðir lögreglu gegn skipulagðri brotastarfsemi. Á Íslandi er innflutningur og framleiðsla fíkniefna stærsti þáttur í starfsemi slíkra hópa, en einnig getur slík starfsemi tengst tryggingasvikum, fasteignaviðskipum og peningaþvætti, auk þess sem stundað er mansal og vændi.
Við teljum að skipulögð brotastarfsemi sé einhver mesta ógn sem samfélög glíma við í dag. Það sem einkennir þessar rannsóknir er að við erum að rannsaka starfsemi – sem kallar á mjög flóknar og tímafrekar rannsóknir – geta varið í 1-2 ár, jafnvel lengur. Auk þess sem starfsemin getur teygt sig yfir umdæmi og landamæri og því mikilvægt að lögreglan vinni sem heild saman að slíkum rannsóknum. Nýlega gaf ríkislögreglustjóri út verklagsreglur um samvinnu og samstarf lögreglu við aðgerðir gegn skipulagðir brotastarfsemi sem hafa reynst lögreglu vel við rannsóknir sem þessar.
Skipulögð brotastarfsemi er á mörgum sviðum en það sem við ætlum að kynna fyrir ykkur í dag tengist aðallega framleiðslu og sölu á fíkniefnum. Við höfum verið að vinna saman með öðrum lögregluliðum að langtíma rannsókn en einnig hefur LRH verið samhliða með aðrar rannsóknir. Samvinna hefur verið mikil á milli héraðssaksóknara, embætti ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á Suðurnesjum og lögreglustjórans á Suðurlandi.
Það er mat okkar að samvinna og samstarf innan lögreglu og við aðra hagaðila sé lykilatriði í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Fyrir hönd Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vil ég þakka öllum þeim sem hafa unnið að rannsóknum þessara mála með okkur, sem hafa verið mjög mannfrekar og yfirgripsmiklar.“
GRÍMUR GRÍMSSON YFIRLÖGREGLUÞJÓNN:
„Um mitt ár 2020 bárust lögreglu, í gegnum tengslaskrifstofu Íslands hjá Europol, upplýsingar sem aflað hafði verið úr dulkóðuðum samskiptum. Upplýsingarnar vörðuðu brotastarfsemi sem fram færi á Íslandi. Í framhaldinu var settur saman rannsóknarhópur hvar áttu fulltrúa LRH, HSS, RLS og LSS. Hópurinn hefur nú starfað í um 1,5 ár.
Rannsóknin hefur leitt í ljós að á fyrri hluta árs 2020 voru flutt efni til landsins sem notuð voru til framleiðslu á 117,5 kg amfetamíns. Þá voru haldlögð 5 kg amfetamíns í aðskildu máli sem grunur leikur á að sé hluti hinna framleiddu efna. Verðmæti hinna framleiddu efna er ríflega 700 milljónir króna ef miðað við götuverð.
Hinn 20. maí sl. réðst lögreglan í aðgerðir er vörðuðu þá rannsókn sem ég hef hér fjallað um en einnig aðra rannsókn, sem unnin hefur verið hér hjá LRH og Margeir Sveinsson mun fara yfir hér á eftir. Í nefndum aðgerðum voru handteknir 10 einstaklingar sem grunaðir eru um að eiga aðild að málunum. Fimm þeirra voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og sæta þrír þeirra enn gæsluvarðhaldi. Í framhaldi þessara aðgerða hefur töluverður fjöldi einstaklinga til viðbótar verið yfirheyrðir og framkvæmdar húsleitir.
Hvað varðar þá rannsókn sem ég hef hér farið yfir þá hefur samvinna starfsmanna framangreindra embætta verið með miklum ágætum og hver og einn lagt til sérhæfða þekkingu og reynslu sem nýst hefur við rannsóknina. Stjórn rannsóknarinnar hefur verið í höndum LRH þar sem rannsóknarforræði málsins er hjá því embætti.“
MARGEIR SVEINSSON AÐSTOÐARYFIRLÖGREGLUÞJÓNN:
„Undanfarna mánuði hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið með til rannsóknar hóp manna sem hafa verið í framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna ásamt því sem grunur er um peningaþvætti. Er þetta liður í rannsókn gegn skipulagðri brotastarfsemi sem lögregla telur og hefur upplýsingar um að sé stór þáttur í okkar samfélagi, líkt og fram kom hjá Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra.
Fram kom hjá Grími Grímssyni yfirlögregluþjóni að lögreglan hafi farið í sameiginlegar aðgerðir vegna þessara starfsemi, eða þann 20.maí sl. Þá voru framkvæmdar um 14 leitir í ökutækjum, iðnaðarhúsnæði, sveitabæjum og heimilum. Rannsókn málsins er ekki lokið og eftir aðgerðirnar þann 20. maí hafa verið framkvæmdar 6 leitir til viðbótar, þannig að í heildina er um að ræða 20 leitir í húsnæði og ökutækjum.
Við þessa rannsókn hafa 10 manns verið handteknir og 5 hafa sætt gæsluvarðhaldi. 4 hefur verið sleppt, en einn sætir enn gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarinnar.
Við þessa rannsókn hefur lögreglan lagt hald á ökutæki, símtæki, tölvur og ýmsa aðra muni sem og búnað til framleiðslu fíkniefna. Einnig hefur lögreglan lagt hald á mikið magn fíkniefna og er áætlað að sé eitt mesta magn sem lögreglan hefur lagt hald á hér á landi í tengslum við eina rannsókn.
Þau fíkniefni sem lögreglan hefur lagt hald á koma m.a. beint úr framleiðslu ásamt því sem lagt hefur verið hald á grunnefni, basa, sem notaður er til framleiðslu amfetamíns sem og MDMA basa sem t.d. er notaður í framleiðslu á e-töflum og MDMA kristal. Það magn sem um ræðir og hefur verið lagt hald á er:
- Rúmlega 200 stk. kannabisplöntur
- Rúmlega 30 kg. af marijúana
- (þ.e. efni sem eru tilbúin til sölu og kemur beint úr framleiðslu/ræktun en lögreglan hefur þegar tilgreint frá þeim efnum í tilkynningu í maí sl.)
- Rúmlega 20 kíló af hassi
- kannabis (marijúana og hass) í heild er rúmlega 60 kíló að ótöldum kannabisplöntum (þar inni eru lauf sem eru minni söluvara og voru ekki tilgreind hér í fyrri talningu)
- Um 7 kíló af MDMA kristal
- En úr því er hægt að framleiða um 50 þúsund e-töflur
- Rúmlega 7 þúsund stykki af MDMA töflum (e-töflur) sem tilbúið er til sölu.
- Rúmlega 20 lítra af MDMA basa
- En áætlað er að hægt sé að framleiða úr þessum basa um og yfir 200 þúsund e-töflur (ef MDMA kristal þá um 20 kíló)
- 2 kíló af kókaíni
- 1 kíló af amfetamín (tilbúið)
- Rúmlega 40 lítra af amfetamínbasa
- En áætlað er m.v. styrkleika þá má gera allt að 170 kíló af tilbúnu amfetamíni til sölu á götuna.
- 2 kíló af kristal methamfetamín (söluskammturinn er frá 0,1 grammi enda mun harðara/sterkara efni að ræða enda er hér á ferð 100%)
Einnig hefur verið lagt hald á óverulegt magn af LSD, kannabisvökva (þ.e. hassolíu) og sterum auk þess sem tekið var talsvert magn af íblöndunarefnum.
Áætlað söluandvirði þeirra efna sem lögreglan hefur lagt hald á hvað þessa rannsókn varðar, og þá komið á götuna, er um 1,7 milljarður króna.
Þessum ágóða er yfirleitt reynt að koma inn í löglegan rekstur og með því er ávinningur af ólögmætu fé komið inn í löglegan atvinnurekstur.
Peningaþvætti, með þeirri aðferð sem tilgreind er hér, er að mati lögreglu mjög umfangsmikil hér á landi ásamt því sem skipulögð brotastarfsemi er talin ein helsta ógn vegna fjármögnunar hryðjuverka að mati Europol.
Að lokum vill ég beina því til fólks og hvetja það til að koma ábendingum til lögreglu vakni grunur um framleiðslu fíkniefna enda fer slík framleiðsla fram í iðnaðarhúsnæði, sumarhúsum, útihúsum/sveitabæjum, fjölbýlishúsum og einbýlishúsum þannig að þetta getur þess vegna verið í næsta nágrenni við okkur eða nánast í garðinum hjá okkur.
Í því sambandi myndi ég einnig vilja nefna nokkur dæmi sem gæti gefið helst til kynna að framleiðsla er í gangi og það er m.a. að dregið er fyrir alla glugga, mikil rafmagnsnotkun (ef talað er um ræktanir), grunsamlegar mannaferðir og lykt sem dæmi. Því vil ég hvetja fólk til að gæta vel að nærumhverfi sínu enda hefur lögreglan séð mikla aukningu á framleiðslu fíkniefna hér á landi sl. ár og þá aðallega kannabisræktanir.“
HULDA ELSA BJÖRGVINSDÓTTIR, SVIÐSTJÓRI ÁKÆRUSVIÐS:
„Ákærendur hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hófu að fara með kröfur í dóm í tengslum við rannsókn annars málsins sem er hér til umfjöllunar í byrjun september árið 2020, en þá var farið með kröfu í dóm þar sem krafist var símagagna frá fjarskiptafyrirtækjum sem urðu til frá og með byrjun mars sama ár. Síðan þá hafa ákærendur farið fjölmargar ferðir í dóm með kröfur, en samanlagt eru kröfur og greinargerðir vegna rannsókna þessara tveggja rannsóknarteyma á þriðja hundrað talsins.
Það má segja um um sé að ræða allar tegundir krafna um þvingunarráðstafanir. Þegar svo farið var í beinar aðgerðir gegn sakborningum fyrir 3 vikum þá tóku gæsluvarðhaldskröfur við, en 6 einstaklingar hafa sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þau brot sem eru undir í þessum kröfum eru skipulögð brotastarfsemi sem tengist framleiðslu, innflutningi, sölu og dreifingu fíkniefna og peningaþvætti.
Vinna ákærenda hefur verið gríðarleg í málinu, en unnið er samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara um rannsóknaráætlanir, og mikill tími sem hefur farið í greiningar sakarefnis og faglega ráðgjöf, en ákærendur eru ábyrgir fyrir því að tryggja framgang og gæði rannsóknar sakamáls.
Þá hefur töluverður tími ákærenda farið í samskipti við erlend ríki og löggæslustofnanir og rannsóknar- og réttarbeiðnir verið sendar til annarra ríkja með aðkomu dómsmálaráðuneytisins.
Lögregla ætlar að sakborningar sem eru hér til rannsóknar hafi nýtt sér dulkóðuð samskiptakerfi, eða forrit í samskiptum sínum annars vegar í þeim tilgangi að hylja slóð sína og hins vegar til að njóta nafnleyndar.
Á undanförnum árum hafa yfirvöld komist á snoðir um samskiptakerfi sem gefa sig út fyrir að vera 100% örugg. Þessi forrit hafa sum hver verið markaðssett fyrir skipulagða brotahópa. Eitt af þeim er samskiptaforritið Encrochat en yfirvöldum í Frakklandi tókst að komast yfir gríðarlegt magn samskipta manna á milli sem eiga það flest sameiginlegt að snúast um skipulagða brotastarfsemi á alþjóðlegum vettvangi. Íslensk lögregluyfirvöld fengu formlega heimild til að greina og nota þessi gögn þar sem í ljós kom að þar mátti finna samskipti manna á íslensku, en einnig á öðrum tungumálum sem fjalla um innflutning fíkniefna til Íslands og mikla fjármuni á Íslandi í þessu samhengi.
Eins og hefur komið fram þá hafa löggæslustofnanir hér á Íslandi lagst á eitt til að ljóstra upp um skipulagða brotastarfsemi. Brotin sem eru hér til umfjöllunar eru af þeirri stærðargráðu að velta má því fyrir sér hvaða áhrif þau hefðu getað haft á líf og líkama einstaklinga, og hagkerfið, ef sala og dreifing fíkniefnanna hefði náð fram að ganga, en áætlað er, eins og hér hefur komið fram, að söluverðmætið hlaupi á milljörðum.
Greiningadeild ríkislögreglustjóra hefur frá árinu 2007 lagt mat á umfang skipulagðrar brotastarfsemi í landinu og í skýrslu 2019 var áhætta vegna hennar metin gífurleg, þ.e. efsta stig af fjórum. Í skýrslu frá 2021 er að finna gott yfirlit um þær áhættuminnkandi aðgerðir sem ráðist var í til að sporna við þessari starfsemi. Í þessu samhengi þá verður ekki fram hjá því litið að íslensk löggæsluyfirvöld sitja ekki við sama borð og erlendar systurstofnanir þegar kemur að rannsókn þessara mála, og þar má helst nefna tímamörk gæsluvarðhalds á rannsóknarstigi, þ.e. gæsluvarðhald má að jafnaði ekki vara lengur en 12 vikur. Ég ætla að menn hafi, þegar lögin voru sett á sínum tíma, ekki órað fyrir því umfangi sem getur verið á rannsóknargögnum og tengist að miklu leyti auknum fjölda stafrænna gagna.
Þessar aðgerðir allar og mikil og góð samvinna löggæslustofnana, með stuðningi stjórnvalda, eru að skila árangri og við getum svo sannarlega fagnað því.“