27 Mars 2007 12:00

Eitthvað virðist reglugerð um ökuskírteini hafa vafist fyrir sextán ára pilti sem var hársbreidd frá því að lenda í árekstri við lögreglubifreið í Reykjavík nýverið. Þrátt fyrir ungan aldur sat hann undir stýri bifreiðar en ekki var um æfingaakstur að ræða því enginn leiðbeinandi var með honum í för. Fyrir vikið fær pilturinn 10 þúsund króna sekt (akstur án þess að hafa öðlast ökurétt) en hann á margt ólært í umferðinni. T.d. það að ávallt skal virða biðskyldu en sú yfirsjón piltsins hafði næstum því reynst honum dýrkeypt eins og fyrr sagði. Þess má geta að umræddur piltur verður 17 ára í lok mánaðarins og vonandi mætir hann þá betur undirbúinn út í umferðina.

Í þessu sambandi er líka rétt að minnast frekar á reglugerð um ökuskírteini (nr. 501/1997) en hún var nefnd til sögunnar hér áðan. Þar segir m.a. í viðauka (IV) um ökunám; Ökutæki sem notað er til æfingaaksturs með leiðbeinanda skal auðkennt að aftan með merki með áletruninni Æfingaakstur. Sé brotið gegn þessu er heimilt að afturkalla leyfið. Borið hefur á því að merkið hafi vantað en afleiðingar þess eru þær sem að framan sagði.