19 Maí 2015 09:43
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir apríl mánuð 2015 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 721 tilkynning um hegningarlagabrot í apríl, er það um tíu prósent fjölgun á tilkynningum á milli mánaða. Þar af bárust 375 tilkynningar um þjófnaði, en lögreglu hefur ekki borist eins margar tilkynningar í einum mánuði síðan í ágúst 2014. Lögreglu bárust 20 tilkynningar um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu í apríl og hafa tilkynningar ekki verið eins fáar í einum mánuði síðan í nóvember árið 2009. Nú þegar sólin fer hækkandi, sumarið nálgast og reiðhjólum fjölgar á götum borgarinnar er vert að minna eigendur reiðhjóla á að vera á varðbergi og ganga tryggilega frá reiðhjólum sínum. Reiðhjólaþjófnuðum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um rúmlega 190 prósent á milli mánaða og má ætla að þeim haldi áfram að fjölga á næstu mánuðum.