25 Ágúst 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík hefur ítrekað þurft að hafa afskipti af réttindalausum unglingum sem hafa keyrt um götur borgarinnar. Frá 1. janúar til 15. ágúst komu upp 47 slík tilfelli. Hér er um að ræða ökumenn sem hafa ekki náð 17 ára aldri. Strákar eru hér í meirihluta eða 36 en stelpurnar voru 11. Þetta er mikil óheillaþróun en slíkum málum hefur fjölgað um meira en helming frá því í fyrra. Árið 2005 voru teknir 30 unglingar yngri en 17 ára fyrir þessa iðju á jafnlöngu tímabili. Þá eins og nú voru strákar í meirihluta eða 23 á móti 7 stelpum.

Foreldrar og forráðamenn  þurfa greinilega að brýna betur alvarleika málsins. Ekki þarf að fjölyrða um slysahættuna sem þessu fylgir auk þeirra viðurlaga sem er beitt. Því er á það minnt að 15-17 ára unglingar sæta sömu refsingum og aðrir ökumenn. Ef ekið er án þess að hafa öðlast til þess réttindi fær viðkomandi fjársekt og punkta í ökuferilsskrá.