8 Maí 2012 12:00

Það er margsannað að reykingar eru hættulegar. Samt reykja margir en það er önnur saga. Best er að byrja aldrei og freistast ekki til þess að fikta. Nokkrir unglingspiltar í borginni stóðust samt ekki mátið og þurftu endilega að prófa. Einn þeirra ætlaði að gera þetta almennilega og með svakalegum stæl. Hann batt saman allnokkrar sígarettur og hugðist reykja þær allar í einu. Það gekk heldur brösuglega, pilturinn gafst upp og henti þeim frá sér. Strákarnir sneru sér síðan að einhverju öðru og væntanlega heilbrigðara og yfirgáfu trésvalirnar þar sem tilraunin hafði farið fram. Því miður gleymdu þeir hins vegar að drepa í sígarettunum og svo fór að það kviknaði í svölunum. Annað heimilisfólk fann síðan reykjalykt og sá eldinn á svölunum þegar það fór að svipast um. Gripið var til slökkvitækis og vel gekk að ráða niðurlögum eldsins en einhverjar skemmdir urðu á svölunum. Slökkvistarfinu var svo gott sem lokið þegar slökkviliðið og lögreglan komu á vettvang en hætt er við að strákarnir gleymi þessu atviki ekki í bráð. Vonandi hafa þeir samt lært sína lexíu og halda sig alfarið frá reykingum héðan í frá.