22 Ágúst 2006 12:00

Það eru ekki bara ungir og óreyndir ökumenn sem gerast sekir um hraðakstur. Hinir eldri og reyndari aka líka stundum of hratt. Lögreglan í Reykjavík tók 22 ökumenn fyrir hraðakstur í gær en tæplega helmingur þeirra var 40 ára og eldri. Þetta voru bæði karlar og konur en sá elsti var á sjötugsaldri.

Hinir svokölluðu reyndu ökumenn komu líka við sögu í mörgum þeirra umferðaróhappa sem urðu í gær. Þannig má nefna að kona á áttræðisaldri ók á kyrrstæðan bíl og karl, litlu yngri,  ók bíl sem hafnaði aftan á öðrum. Það er því alveg ljóst að ökumenn, á hvaða aldri sem þeir eru, þurfa að hafa einbeitinguna í lagi.

Þá var tvítug kona tekin fyrir hraðakstur en þegar betur var að gáð reyndist hún jafnframt vera réttindalaus. Konan hafði verið svipt ökuleyfi fyrr í sumar og ekki bætti þetta úr skák. Lögreglan stöðvaði líka för fimmtugs karlmanns sem reyndist sömuleiðis vera réttindalaus. Einn var tekinn fyrir ölvunarakstur.