29 Júní 2017 17:43
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill ítreka varnaðarorð sín frá í gærkvöld um þá miklu hættu sem stafar af rörasprengjum, en tilefnið var að ein slík fannst í strætóskýli á Hlíðarvegi í Kópavogi.
Rörasprengjur hafa komið við sögu hjá lögreglu annað slagið í gegnum árin og sjálfsagt verður aldrei nógu oft sagt hversu hættulegar þær eru. Rörasprengjan, sem fannst í gær, hefði getað kostað mannslíf. Þess vegna á fólk alltaf að hafa strax samband við lögreglu ef það finnur rörasprengju og alls ekki að hreyfa við henni. Rörasprengjan sem fannst í Kópavogi var flutt á öruggt svæði þar sem henni var eytt. Líkt og sjá má á annarri myndinni, sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt, er augljóst að ef einhver hefði staðið við hlið sprengjunnar er hún sprakk, væri hinn sami jafnvel ekki til frásagnar um það. Á myndinni má enn fremur sjá hvernig málmagnir þeytast í allar áttir og þeir sem standa jafnvel einhverja tugi metra í burtu væru í mjög mikilli hættu.