24 Október 2006 12:00

Rúður voru brotnar í þremur bílum í Reykjavík í gær en að auki var einn bílanna líka rispaður. Allt gerðist þetta um hábjartan dag en ekki er vitað hvað skemmdarvörgunum gekk til því engu var stolið úr bílunum. Þá var grjóti kastað inn um glugga í húsi í vestubænum og hafnaði það í sófa í íbúðinni. Engan sakaði.

Nokkrir óknyttastrákar voru síðan á ferðinni í einu úthverfa borgarinnar og beittu rjómasprautum. Þeir sprautuðu á minnst einn bíl og sprengdu síðan rjómasprauturnar með tilheyrandi látum. Ekki er ljóst hvort af þessu hlaust eitthvað varanlegt tjón. Talið er að uppátæki strákanna tengist minniháttar ólátum sem þarna voru.

Öllu meiri fyrirferð var í liðlega þrítugum karlmanni sem gekk berserksgang í íbúð kunningja sinna í nótt. Sá hafði allt á hornum sér og braut m.a. rúðu og spegil í íbúðinni. Ekki er vitað hvað olli reiði mannsins en hann var færður á lögreglustöð og vistaður í fangageymslu.