3 Maí 2020 17:46
Á tímum Covid-19 er mjög mikilvægt að sýna tillitssemi enda eru allir að fóta sig í nýjum aðstæðum. Hér erum við m.a. að vísa til 2 metra reglunnar, en ekki hafa allir náð tökum á henni ennþá. Þetta er nefnt hér vegna útkalls sem lögreglan sinnti á dögunum, en þá var farið á vettvang í ónefndu húsi vegna tilkynningar um átök tveggja manna. Báðir voru á staðnum þegar lögreglan kom, en þeim bar ekki saman um málsatvik. Annar sagði að hinn hefði slegið sig, en sá síðarnefndi vildi ekki kannast við það. Spurðir frekar reyndist þrætueplið vera lyfta, sem mennirnir hugðust nota til að fara á milli hæða í húsinu. Annar mannanna virtist telja að þeir gætu báðir notað lyftuna í sömu ferðinni, en hinn var á öðru máli. Mennirnir voru líka á öndverðu meiði þegar kom að 2 metra reglunni og hélt annar þeirra því fram að hún hefði verið brotin. Lögreglan lét það vera að mæla rýmið í lyftunni enda engir áverkar sjáanlegir á mönnunum og líka kominn einhver sáttatónn á vettvangi. Lögreglan beið ekki eftir að afsökunarbeiðni væri borin fram enda voru önnur verkefni sem hún þurfti að sinna annars staðar og voru metin í meira forgangi. Ekki er búist við neinum eftirmálum vegna atviksins, en hjá því hefði mátt komast ef menn hefðu sýnt tillitssemi. Í gamla daga hefðu menn líklega bara sagt að sá vægir sem vitið hefur meira.