22 Nóvember 2006 12:00

Sautján umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík í gær en í þremur tilfellum var um afstungur að ræða. Óhöppin voru flest minniháttar en í einu tilviki var ökumaður fluttur á slysadeild. Sá ók vörubifreið en hún valt þegar sturta átti farminum af. Myndavélabíll lögreglunnar var á ferðinni í gær, rétt eins og aðra daga, og myndaði m.a. brot 24 ökumanna við Foldaskóla í Grafarvogi. Meðalhraði þeirra var rúmlega 46 km/klst en sá sem hraðast ók mældist á 52 km hraða. Lögreglan var við hraðamælingar víða annars staðar í borginni og í Breiðholti stöðvaði hún för tveggja ökumanna sem óku á tæplega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða í Norðurfelli og Gyðufelli.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir að spenna ekki beltin og fjórir óku gegn rauðu ljósi. Þá hafði lögreglan afskipti af allmörgum ökumönnum sem vanræktu merkjagjöf. Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunarakstur en sá var stöðvaður í miðbænum í nótt. Þá má geta þess að klippt voru skrásetningarnúmer af tíu ökutækjum sem öll voru ótryggð.