16 Desember 2010 12:00

Hann var heldur seinheppinn þjófurinn sem reyndi að brjótast inn í fyrirtæki í austurborginni í nótt. Þjófurinn, karl um þrítugt, hafði brotið rúðu í útidyrahurð og var á leið inn i húsið þegar til hans sást. Kauði tók þá til fótanna en komst ekki langt því hann datt og lá óvígur eftir. Hinn óprúttni aðili var enn sárþjáður þegar lögreglan kom á vettvang en talið var að hann hefði fótbrotnað. Manninum, sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, var því ekki ekið í fangageymslu heldur strax komið undir læknishendur.