23 Ágúst 2006 12:00

Það er ekki oft sem þarf að hafa afskipti af ökumönnum fyrir að keyra of hægt. Það gerðist þó hjá lögreglunni í Reykjavík í gær. Þá stöðvaði hún ökumann á Vesturlandsvegi en sá var með hjólhýsi í eftirdragi. Viðkomandi ók töluvert undir 50 km hraða og á eftir honum myndaðist löng röð bíla. Við þetta skapaðist hættuástand að mati lögreglunnar.

Ökumaðurinn með hjólhýsið gerði jafnframt ekkert til að liðka fyrir umferðinni sem á eftir honum kom.  Hann gaf hvorki öðrum bílum merki um að komast framhjá né keyrði til hliðar til að hleypa þeim framhjá. Á umræddum vegi er einmitt svigrúm til að gera slíkt.

Þetta dæmi sýnir að ökumenn þurfa ávallt að vera vakandi fyrir aðstæðum hverju sinni. Þess má líka geta að svona aksturslag getur kostað viðkomandi ökumann tíu þúsund krónur í sekt og tvo punkta í ökuferilsskrá.