16 September 2006 12:00

Sérsveit ríkislögreglustjóra yfirbugaði vopnaðan mann í Elliðaárdalnum eftir klukkan þrjú í nótt. Maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, var vopnaður haglabyssu og neitaði að hlýða fyrirmælum lögreglunnar. Hann var mjög ógnandi og ljóst er að þarna var mikil hætta á ferðum. Hálfþrítugur maður var með byssumanninum í för en hann hlýddi tilmælum lögreglunnar um leið og hún kom á vettvang. Mennirnir voru báðir ölvaðir og gista nú í fangageymslu lögreglunnar. Þeir verða yfirheyrðir síðar í dag.

Tilkynning um mennina tvo barst lögreglunni í Reykjavík klukkan 2:48 í nótt. Í henni kom fram að tveir menn væru á ferð í Breiðholti og væri annar þeirra með byssu í fórum sínum. Lögreglu var tjáð að þeir hefðu hleypt af a.m.k. einu skoti. Sérsveit ríkislögreglustjóra var strax kölluð til og brást hún skjótt við. Mennirnir voru síðan handteknir eins og áður hefur komið fram. Það er nú staðfest að hleypt var af einu skoti áður en lögreglumenn komu á vettvang.