2 Nóvember 2006 12:00

Nokkrir aðilar komu við sögu í sex fíkniefnamálum hjá lögreglunni í Reykjavík í gær og nótt. Eftir hádegið stöðvaði lögreglan för tveggja manna í miðbænum með stuttu millibili. Þeir eru á fimmtugsaldri en í fórum beggja fundust ætluð fíkniefni. Síðdegis fundust ætluð fíkniefni í bíl í úthverfi en ökumaðurinn var þrítugur karlmaður. Rétt undir kvöldmat fundust ætluð fíkniefni í húsi í öðru úthverfi en þar dvaldi par á þrítugsaldri. Klukkutíma síðar fundust svo ætluð fíkniefni í húsi á öðrum stað í borginni en þar var húsráðandi hálfþrítugur karlmaður. Og í nótt stöðvaði lögreglan för ökumanns í austurbænum en í bíl hans og á farþega fundust líka ætluð fíkniefni. Fólkið í bílnum, karl og kona, er á þrítugsaldri.