26 Janúar 2007 12:00
Tíu manns komu við sögu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í sex fíkniefnamálum í gær og nótt. Síðdegis voru tveir karlmenn, annar á fertugsaldri en hinn rúmlega tvítugur, handteknir í miðborginni en í bíl þeirra fundust ætluð fíkniefni. Um svipað leyti var farið á heimili karlmanns á miðjum aldri í Hafnarfirði en þar fundust sömuleiðis ætluð fíkniefni.
Eftir kvöldmat var farið í íbúð í Breiðholti þar sem húsráðendur, karlmaður og kona á þrítugsaldri, eru grunuð um fíkniefnamisferli. Síðla kvölds var 18 ára piltur handtekinn í austurborginni en á dvalarstað hans fundust ætluð fíkniefni. Á sama tíma voru þrír karlmenn handteknir á öðrum stað í austurborginni en þeir eru allir grunaðir um fíkniefnamisferli. Tveir þeirra eru á fertugsaldri og einn á þrítugsaldri.
Þá var hálfþrítugur karlmaður handtekinn í Hafnarfirði í nótt. Á honum og í bíl hans fundust ætluð fíkniefni.