22 September 2006 12:00

Sex ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Það verður að teljast í meira lagi en þess má geta að einn þessara ökumanna var líka tekinn fyrir ölvunarakstur í sumar. Að venju var töluvert um umferðaróhöpp í gær en mikið er um aftanákeyrslur þessa dagana.

Að lenda í slíku er bagalegt en þá er mikilvægt að gera ekki illt verra. Hér er átt við þau viðbrögð ökumanna sem stundum fylgja í kjölfarið. Þá standa þeir á milli bílanna, bæði til að meta tjónið og jafnvel eins til að bíða eftir lögreglunni. Dæmi af þessu tagi hafa sést á fjölförnustu gatnamótum borgarinnar. Við þessar aðstæður er alltaf sú hætta fyrir hendi að þriðji bíllinn fylgi á eftir og þá fyrst verður tjónið mjög alvarlegt og jafnvel óbætanlegt.

Lögreglan hvetur fólk til að hafa þetta í  huga og biður það að fylgjast alltaf með umferðinni í kringum sig og ekki síst við þær aðstæður sem hér var lýst.