24 Júlí 2006 12:00

Sextán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur hjá lögreglunni í Reykjavík um helgina og er það mikið áhyggjuefni. Jafnmargir ökumenn voru stöðvaðir fyrir að nota ekki bílbelti og þá voru þrjátíu teknir fyrir hraðakstur þessa sömu helgi.

Umferðaróhöpp voru allmörg en helgin fór illa af stað. Flytja þurfti nokkra á sjúkrahús eftir árekstur á Suðurlandsvegi síðdegis á föstudag en um svipað leyti var ekið á ungan dreng í Lönguhlíð. Hann var einnig fluttur á sjúkrahús og mun hafa fótbrotnað.

Önnur umdæmi fóru ekki varhluta af slysum og það er ljóst að allir verða að taka sig á í þessum efnum. Fækkun umferðarslysa er raunhæft markmið ef allir leggjast á eitt.