9 Nóvember 2006 12:00

Sextán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring en í þremur tilfellum fóru tjónvaldar af vettvangi án þess að axla ábyrgð. Engin slys urðu á fólki í umferðinni í gær utan þess að vegfarandi, öldruð kona, féll í miðborginni síðdegis en hún var flutt á slysadeild til frekari skoðunar.

Nokkrir voru teknir fyrir hraðakstur. M.a. 18 ára piltur en bíll hans mældist á 130 km hraða í Ártúnsbrekkunni í gærmorgun. Þrír ökumenn, tveir í Breiðholti og einn í vesturbænum, voru stöðvaðir í íbúðargötum en þeir óku allir á tæplega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða. Fjórir voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og einn, karlmaður á sjötugsaldri, var stöðvaður fyrir ölvunarakstur.

Fáeinir notuðu ekki bílbelti í gær eða töluðu í síma án þess að nota handfrjálsan búnað. Lögreglan í Reykjavík fylgist grannt með að slíkir hlutir séu í lagi. Þess má jafnframt geta að öll lögregluliðin á Suðvesturlandi fylgjast líka grannt með að notkun stefnuljósa sé í lagi hjá ökumönnum. Nokkuð vantar upp á að stefnumerkjagjöfin sé viðunandi, ekki síst í hringtorgum.