28 September 2019 09:30

Í heftinu Reglur fyrir lögregluna í Reykjavík, sem kom út árið 1933, er að finna áhugaverðan fróðleik um það hvernig lögreglumenn áttu að bera sig að við störf sín. Hér er gripið niður í 3. gr. í IV. kafla, sem hefur að geyma nokkrar skýringar við áðurnefndar reglur. „Lögregluþjónn á götum verður að gæta þess, að það sje tekið eftir honum. Hann má því ekki ganga lotinn og heldur ekki of spertur eða drembilegur. Hann má ekki lalla letilega með hendur í vösum, slúðrandi við hvern og einn og labbandi með mönnum um göturnar. Hann má heldur ekki halla sjer upp að veggjum o.s.frv. Hann á að ganga beinn, eftirtektarsamur og látlaus eftir götunni og framkvæma verk sitt með hæversku. Hann á að muna, að hann er ekki að slæpast á götunni, heldur að vinna, og vinnan er í því fólgin að ganga um og taka eftir, leiðbeina og leiðrjetta. Fólkið verður að sjá og finna, að það hefir svona mann yfir sjer á götunni, að það hefir lögreglumann, en ekki eftirtektarlausan og aðgerðalausan slæpingja. Lögregluþjónn á götunni hefir líka nóg að gera. Vanalega er eitthvað, sem þarf að athuga og leiðrjetta, og þá sjaldan það er ekki, er þó margt sem hann þarf að taka eftir – hann veit aldrei hvenær eitthvað kann að bera að höndum og hvenær það getur komið sjer vel að hafa sjeð þenna mann þarna á þessum tíma eða þetta og hitt hjer eða þar. Það er og fróðlegt fyrir greindan lögregluþjón að athuga andlitin á fólkinu, sem fer fram hjá honum, festa þau sjer í minni og sjá hvað í svipnum býr. Lögregluþjónn á alltaf að vera að taka eftir, – það er vinna hans. Og lögggæslumaðurinn – sjálf fyrirmyndin -, sem á að sjá um að aðrir geri skyldu sína, má ekki auglýsa það með framkomu sinni á götum úti, að hann svíkist sjálfur um að gera sína eigin skyldu.“

Í upphafi fjórða áratugarins fékk lögreglan nýjan búning og var myndin tekin við það tækifæri á tröppunum við Nýja Bíó.
Fremsta röð: Þórður Geirsson, Guðmundur Stefánsson, Ólafur Jónsson, Ágúst Jónsson, Margrímur Gíslason, Guðbjörn Hansson, Sæmundur Gíslason og Kristján Jónasson.
Önnur röð: Sigtryggur Eiríksson, Skúli Sveinsson, Matthías Guðmundsson, Sigurður Gíslason, Magnús Eggertsson og Ingólfur Þorsteinsson.
Þriðja röð: Guðlaugur Jónsson, Sigurður Ingvarsson, Björn Vigfússon, Magnús Sigurðsson, Karl Guðmundsson og Magnús P Hjaltested.
Aftasta röð: Geir Finnur Sigurðsson, Stefán Thorarensen, Jakob Björnsson og Matthías Sveinbjörnsson.

Lögreglufylgd við útför Geirs Sigurðssonar lögreglumanns um vorið árið 1937 þar sem gengið var niður Hverfisgötu.