4 Október 2012 12:00

Sextán voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar gegn vélhjólagengi í gærkvöld en þær hófust um kl. 20 og stóðu fram yfir miðnætti. Lagt var hald á nokkra tugi gramma af sterkum fíkniefnum, stera, bruggtæki og bæði landa og gambra. Hluti fíkniefnanna fannst í húsnæði vélhjólagengisins í Hafnarfirði. Alls voru framkvæmdar fjórar húsleitir á höfuðborgarsvæðinu, tvær á Suðurnesjum og ein í Árnessýslu. Sumir hinna handteknu voru einnig handteknir í aðgerðum lögreglunnar gegn vélhjólagengi í síðasta mánuði. Eftir aðgerðirnar í gærkvöld voru þrettán, ellefu karlar og tvær konur, vistaðir í fangageymslu lögreglunnar, en yfirheyrslur hafa staðið yfir í allan dag. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir einhverjum þeirra. 

Eins og áður hefur komið fram var um að ræða sameiginlegar aðgerðir lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, embættis ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á Suðurnesjum og lögreglunnar í Árnessýslu. Til viðbótar því sem áður var nefnt var einnig lagt hald á ætlað þýfi og margskonar eggvopn.

Flestir hinna handteknu eru meðlimir í vélhjólagenginu og hafa jafnframt áður komið við sögu hjá lögreglu. Á áttunda tug lögreglumanna tóku þátt í aðgerðunum, sem voru nokkuð umfangsmiklar, auk starfsmanna tollgæslunnar sem aðstoðuðu við húsleitir með sérþjálfuðum hundum.