16 Mars 2007 12:00

Sjö ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Fjórir voru stöðvaðir í Reykjavík, tveir í Hafnarfirði og einn í Kópavogi. Þetta voru fimm karlmenn og tvær konur. Tveir karlanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.

Þrjátíu og fimm umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring, flest minniháttar. Í einu tilviki var ekið á hjólreiðarmann sem slasaðist lítillega og í öðru varð þrítug kona fyrir bíl. Konan var sjálf akandi en hafði numið staðar í íbúðargötu til að hlúa að smábarni sem var með henni í för. Bíll hennar stóð nánast á miðri götunni og konan var við hægri afturhurð ökutækisins þegar óhappið varð. Ökumaður aðvífandi bíls gætti ekki að sér og ók yfir annan fót konunnar. Hún slapp samt ótrúlega vel og ætlaði sjálf að leita sér læknisaðstoðar.

Mjög lítið bar á hraðakstri í umdæminu í gær og svo virðist sem ökumenn hafi tekið tillit til aðstæðna.