12 Desember 2006 12:00

Sjö ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring en það er óvenju mikið á virkum degi. Þetta voru aðallega karlmenn á fertugs- og fimmtugsaldri en sá elsti var á áttræðisaldri og kom nú við sögu lögreglunnar í fyrsta sinn.

Þá stöðvaði lögreglan för fimm ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Einn þeirra var kona á fertugsaldri en hún gaf upp ranga kennitölu og reyndi þannig vísvitandi að blekkja lögregluna. Þrír ökumenn voru með útrunnið ökuskírteini en nokkuð ber á slíku. Sömuleiðis eru margir ekki með ökuskírteinið meðferðis og virðist gilda einu þó við því liggi sekt. Dæmi um það er ökumaður sem var tekinn fyrir hraðakstur í gær en í þrígang hefur hann ekki getað framvísað ökuskírteini þegar eftir því var leitað.

Fimmtán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í gær en það þykir í minna lagi. Í einu tilviki var fólk flutt á slysadeild en meiðslin voru ekki talin alvarleg.