22 Apríl 2016 15:25

Lögregla þarf í sífellu að vera á tánum gagnvart nýjungum á fíkniefnamarkaðnum, til að geta brugðist við og komið í veg fyrir afbrot því tengdu, líkamstjóni af völdum eiturlyfja eða í versta falli dauðsföllum sem má rekja til neyslu eiturlyfja.

Undanfarna mánuði höfum við verið að fá til okkar einstaklinga sem eiga enga sögu um óreglu og falla ekki inn í þann hóp neytenda sem við annars eigum við. Þetta hefur vakið undrun okkar, umrætt fólk hefur verið illviðránalegt, haldið miklum ranghugmyndum um sig og eða umhverfi sitt, með gríðarlega hátt sársaukaþol og verulega hættulegt umhverfi sínu en þó fyrst og fremst sjálfu sér.

Eins undarlegt og það kann að hljóma, þá virðist það vera í tísku núna hjá einhverjum hópi ungs fólks að prófa að neyta LSD. Þessi hópur sem vanalega tengir sig ekki við eiturlyf, stundar skóla og eða vinnu, og engan hefði áður grunað að þessir einstaklingar myndi láta sér detta í hug að prófa eiturlyf. Mun tilgangurinn vera sá að upplifa heiminn, og skynja í nýju ljósi. Svo virðist sem þessir einstaklingar séu haldnir þeim misskilningi að efnið sé svo til hættulaust og að það skaði ekki að taka efnið einu sinni.

Lögregla vill ítreka fyrir þeim sem hafa hugleitt að neyta efnisins LSD, að það er stórhættulegt efni og líklegum áhrifum þess ber að taka alvarlega. Þetta eina skipti getur valdið miklum skaða og ljóst að fólk undir áhrifum þess er ekki meðvitað um eigin hegðun og gjörðir meðan áhrifin vara. Það að lenda í fangaklefa yfir nótt líkt og einhverjir hafa lent í væri langt í frá það versta sem gæti komið fyrir.

Um LSD:
LSD hefur ofskynjunaráhrif við inntöku. Áhrifin eru mikið einstaklingsbundin og umhverfið hefur einnig talsverð áhrif. Ofskynjunaráhrifin geta leitt til mikils ótta, ofsóknaræðis og annarra andlegra einkenna sem setja neytendur í talsverða hættu. Í verstu tilfellunum getur slíkt ástand varað í nokkra daga. Í kjölfarið getur neytandinn glímt við minnisleysi og þunglyndi. Oft er LSD kynnt fyrir neytendum sem hættulaust ferðalag. Líkamleg einkenni LSD neyslu eru víkkuð sjáöldur, hraður hjartsláttur, vöðvaspenna og í einhverjum tilfellum hækkaður líkamshiti.

Verum meðvituð um og pössum hvort annað, skiptum okkur af ef okkur líst ekki á ástandið, látið vita ef einhver í kringum ykkur hyggst prófa og foreldrar, ræðið við börnin ykkar !!