12 Desember 2013 12:00
Skartgripum var stolið úr verslun í miðborg Reykjavíkur í gær. Par af erlendum uppruna var strax grunað um verknaðinn, en það kom til landsins síðastliðinn mánudag. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hafði þá afskipti af þeim, en grunur lék á að þau væru hingað komin í vafasömum erindagjörðum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði og afskipti af þeim sama dag og þau komu, grunuð meðal annars um að hafa stolið fatnaði og matvælum. Ekki tókst að færa sönnur á þjófnaðinn en þeim gert að fara af landi brott innan tveggja sólarhringa. Þau hafa engin tengsl við landið og óvíst um framfærslu þeirra hér á landi.
Í kjölfar þjófnaðanna á skartgripunum, hvers verðmæti er á fjórðu milljón, var umfangsmikil leit gerð að þeim auk þess sem lýst var eftir þeim í fjölmiðlum. Þau voru svo handtekin af lögreglunni á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi, þá komin í Leifsstöð og á leið úr landi. Þýfið fannst á þeim við handtöku.
Þau voru yfirheyrð í dag af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og telst málið upplýst. Þau fóru af landi brott að yfirheyrslum loknum. Komi þau að nýju verður mál þeirra tekið upp aftur.