29 September 2006 12:00
Því miður virðast margir haldnir þeirri áráttu að þurfa að skemma fyrir öðrum. Vart líður sá dagur að ekki sé tilkynnt um skemmdarverk til lögreglunnar í Reykjavík. Gærdagurinn var engin undanteking í þeim efnum. Oft eru það bílar sem verða fyrir barðinu á skemmdarvörgum svo ekki sé nú minnst á öll rúðubrotin. Þá er veggjakrot ekkert annað en skemmdarverk en þó nokkuð margir stunda þann ljóta leik.
Í gær var tilkynnt um bíl sem var illa rispaður. Þar hafði einhver rispað bílinn á hliðum, þaki og vélarhlíf og ljóst að tjón eigandans er mikið. Þá voru rúður rispaðir í öðrum bíl og framrúða brotin í þeim þriðja. Í þessari viku er búið að skera í nokkra hjólbarða og í gær kom aftur tilkynning um eitt slíkt mál. Í því tilfelli sat eigandinn uppi með skemmdir á öllum fjórum hjólbörðum bílsins.
Þá voru unnar skemmdir á hurð í fjölbýlishúsi og á ónefndri stofnun í borginni virðist einhver hafa látið skapið hlaupa með sig í gönur. Þar skemmdust innanstokksmunir lítillega.