14 Ágúst 2008 12:00

Tveir skemmdarvargar voru gripnir í Mosfellsbæ í gærkvöld. Um var að ræða unglingspilta sem höfðu sprengt upp ruslatunnu í bænum. Strákarnir forðuðu sér af vettvangi en lögreglan náði að hafa hendur í hári þeirra og viðurkenndu þeir verknaðinn. Annar þeirra var jafnframt með aðra heimatilbúna sprengju í fórum sínum og var hún haldlögð. Piltarnir voru færðir til síns heima og var foreldrum þeirra gert viðvart.