8 Desember 2006 12:00
Fimm ungir skemmdarvargar voru gripnir í austurborg Reykjavíkur um hálfníuleytið í gærkvöld en þeir eru grunaðir um veggjakrot. Í kjölfarið fannst nokkuð af spreybrúsum og pennum en veggjakrot er víða vandamál í borginni. Skemmdarvargarnir sem voru teknir í gær eru allt strákar á grunnskólaaldri.
Fleiri ungmenni komu við sögu lögreglunnar í Reykjavík í gær því síðar um kvöldið voru höfð afskipti af sjö unglingum á aldrinum 14-17 ára. Þeim var vísað út af stað sem hefur vínveitingaleyfi. Dvöl þeirra var því brot á reglum en þess má líka geta að samkvæmt útivistarreglum áttu nokkrir úr hópnum að vera komnir til síns heima.