7 Nóvember 2006 12:00
Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur síðdegis í gær. Maðurinn, sem hefur alloft komið við sögu lögreglunnar, hafði þá skemmt þrjá bíla og lét ófriðlega. Ekki er vitað hvað honum gekk til en maðurinn var í annarlegu ástandi.
Lögreglunni í Reykjavík bárust fleiri tilkynningar um skemmdarverk. Rúður voru brotnar á tveimur öðrum stöðum í borginni. Í öðru tilfellinu var um leikskóla að ræða en einkaheimili í hinu. Þá var brotist inn á þremur stöðum í Reykjavík en í einu tilvikinu var engu stolið. Í öðru þjófnaðarmáli var karlmaður á fimmtugsaldri handtekinn. Í fórum mannsins fannst nokkuð af varningi sem hann gat ekki gert grein fyrir. Þá var unglingsstúlka tekin fyrir hnupl í einni af verslunum borgarinnar.
Þá var lögreglan kölluð til þegar tæplega tvítugur piltur féll af vinnupalli í einu af úthverfum borgarinnar. Hann var fluttur á slysadeild en ekki er vitað um meiðsli hans. Í sama hverfi sofnaði ölvaður karlmaður á sextugsaldri út frá potti á eldavél. Þar fór þó betur en á horfðist því lögreglan kom í tæka tíð og forðaði stórtjóni.