11 Apríl 2007 12:00

Nokkur skemmdarverk voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Bíll var skemmdur í Mosfellsbæ en ökutækið hafði oltið deginum áður og því varð eigandinn að skilja það eftir. Þegar hann sneri aftur var búið að vinna frekari skemmdir á bílnum og því ljóst að tjón eigandans er töluvert. Í austurborginni voru brotnar tvær rúður í fyrirtæki og í Hafnarfirði kom bíleigandi að bíl sínum með brotna rúðu.

Sem fyrr er nokkuð um tilkynningar vegna veggjakrots. Í Kópavogi urðu allnokkrir húseigendur fyrir barðinu á veggjakroturum en tjónið er allmikið. Í sumum tilvikum er ekki hægt að þrífa krotið af, t.d. ef um sérstaka klæðningu er að ræða. Í miðborginni höfðu lögreglumenn hendur í hári fimm ungra pilta á aldrinum 12-14 ára. Þeir voru komnir upp á þak þegar að var komið og voru sakleysið uppmálað. Piltarnir voru vel búnir af spreybrúsum og pennum og af útgangi þeirra mátti vel ráða hvað þeir höfðu haft fyrir stafni. Forráðamönnum þeirra var tilkynnt um málavexti.