30 Janúar 2007 12:00

Nokkuð var um skemmdarverk á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Fjórir ungir veggjakrotarar voru staðnir að verki á Grensásvegi. Þeir viðurkenndu verknaðinn og lauk málinu með sátt. Rúður voru brotnar í þremur bílum í Kópavogi og tveimur í Breiðholti en karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn á síðarnefnda staðnum. Sá var farþegi í leigubíl en til ósættis kom þegar greiða átti fyrir fargjaldið. Lauk þeim viðskiptum með því að maðurinn kastaði grjóti í framrúðu leigubílsins. Rúður voru líka brotnar í bílum í Fossvogi, miðborginni og í Hafnarfirði.

Einn bíll var rispaður í miðborginni og annar í Grafarvogi en þar skemmdu unglingar líka útiljós. Hurð var skemmd í fjölbýlishúsi í Breiðholti en tveir menn voru handteknir vegna málsins. Í sama hverfi voru unnar skemmdir á vinnuskúr. Önnur hurð var illa leikin á gistihúsi í borginni en þar dvöldu karlmaður og kona á fertugsaldri. Þeim sinnaðist og maðurinn gekk á dyr með látum.

Rúða var brotin á skemmtistað í miðborginni og í sama hverfi var hluti af klæðingu rifin af húsi. Þá var bílskúrshurð skemmd í Grafarvogi og þrír póstkassar eyðilagðir í fjölbýlishúsi í Breiðholti.