22 Ágúst 2012 12:00
Miklar skemmdir voru unnar á tveimur bifreiðum í Heiðmörk við Furulund í gærkvöld. Eigendur þeirra höfðu brugðið sér í hjólreiðatúr og skilið bílana eftir á meðan, en það var ófögur sjón sem mætti þeim þegar þeir komu til baka. M.a. var búið að brjóta flestar rúður í bílunum en úr öðrum þeirra var jafnframt stolið fartölvu. Þeir sem geta gefið upplýsingar um málið, en eignaspjöllin voru framin á tímabilinu frá kl. 20-21.45, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is
Því miður hafa verið fleiri svona tilvik á höfuðborgarsvæðinu í sumar þar sem skemmdir eru unnar á bílum, sem lagt hefur verið á útivistarsvæðum. Sama má segja um bilaða bíla sem hafa verið skildir eftir við jafnvel mjög fjölfarnar umferðargötur. Þeir hafa líka orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgum en stundum er eins og tilgangur hinna óprúttnu aðila sé að skemma sem allra mest.
Lögreglan minnir á að verðmæti séu ekki skilin eftir í bílum. Sé það óumflýjanlegt er mikilvægt að slíkir hlutir séu ekki í augsýn. Eigendur og/eða umráðamenn bilaðra bíla, sem þurft hefur að yfirgefa tímabundið, eru jafnframt hvattir til að leita allra leiða til að koma þeim af vettvangi hið fyrsta.
Frá vettvangi í Heiðmörk.