29 Ágúst 2006 12:00

Skemmdir voru unnar á níu bifreiðum í Mosfellsbæ í gærkvöld. Bílunum var öllum lagt í sömu götunni og voru þeir rispaðir mismikið. Tjónið er talsvert en lögreglan í Reykjavík vinnur að rannsókn málsins. Þá skemmdist bíll í miðborginni þegar vinnupallur hrundi en það var ekki af mannavöldum.

Ferðum tveggja reiðhjólamanna lauk á slysadeildinni í gær. Strákur datt á hjólinu sínu í Nauthólsvík og annars staðar í borginni lenti nokkru eldri reiðhjólamaður í hættu. Sá varð að snögghemla til að afstýra árekstri við bíl. Við það meiddist hjólreiðamaðurinn en ökumaður bílsins hvarf af vettvangi án þess að skeyta um gjörðir sínar.