27 Desember 2006 12:00

Svo virðist sem einhverjir hafi ekki verið í neinu jólaskapi undanfarna daga því lögreglunni í Reykjavík bárust nokkrar tilkynningar um skemmdarverk. Ein þeirra var vegna nokkurra krakka sem höfðu skemmt jólaskreytingar í úthverfi. Skemmdarvargarnir eru nánast á unglingsaldri og eiga því að vita betur en fólkið sem varð fyrir barðinu á skemmdarfýsn þeirra varð eðlilega reitt og svekkt. Enda hafði það lagt töluvert á sig til að skreyta og lýsa upp í skammdeginu. Í öðru hverfi borgarinnar sprengdu óprúttnir aðilar flugelda í fjölbýlishúsi. Þar brotnuðu þrjár rúður og fyrir liggur að mála þarf sameign hússins upp á nýtt.

Þá sinnti lögreglan allmörgum útköllum sem bárust vegna hávaða í heimahúsum því ekki voru allir sem héldu jólin í ró og næði. Í flestum tilfellum var um ræða fólk sem hafði drukkið ótæpilega. Slík mál eru alltaf sorgleg og þá ekki síst um jólin. Þá var karlmaður á þrítugsaldri færður í fangageymslu í gær en sá hafði gengið um nakinn í miðborginni.