10 Júní 2005 12:00
Um klukkan 00:40 í nótt réðust fjórir karlmenn og ein kona að ómerktri lögreglubifreið í Hafnarfirði og unnu á henni talsverðar skemmdir.
Aðdragandi þessa var sá að lögreglubifreiðinni, sem notuð var við eftirlit í umdæminu á þessum tíma, var ekið út í kant á Hverfisgötu í Hafnarfirði til að hleypa bifreið árásarmanna framhjá, en henni hafði þá verið ekið á eftir lögreglubifreiðinni í nokkra stund. Var sú bifreið þá stöðvuð einnig og skyndileg árás gerð. Tveir lögreglumenn voru í lögreglubifreiðinni, báðir óeinkennisklæddir.
Fremri hliðarrúður lögreglubifreiðarinnar voru brotnar, bæði ökumanns- og farþegamegin, auk þess sem skemmdir voru unnar á vélarhlíf bifreiðarinnar og á fleiri stöðum. Markmiðið með árásinni virðist hafa verið að ná til þeirra sem í bifreiðinni voru.
Lögreglumennirnir náðu að handtaka tvo þeirra er þarna voru að verki, karlmann á þrítugsaldri og pilt tæplega tvítugan. Þeir gista nú fangageymslur lögreglu og bíða yfirheyrslu. Hinna þriggja er leitað.
Rannsókn málsins stendur yfir. Ekki er hægt að segja það með vissu að svo stöddu hvert tilefni árásarinnar var.
Framhald, sent 10.06.2005 kl. 16:40.
Um klukkan 11:45 í morgun voru tveir karlmenn og ein kona handtekin í húsi í Reykjavík vegna máls þessa, grunuð um að hafa, í félagi við tvo menn aðra sem handteknir voru í nótt, staðið að verknaði þessum.
Búið er að yfirheyra alla aðila málsins. Ekkert það hefur komið fram við yfirheyrslur eða í tengslum við rannsókn þess sem bendir til að árásin hafi beinst eða átt að beinast gegn lögreglu eða lögreglumönnum. Tildrögin munu hinsvegar þau að árásarmenn töldu sig þekkja mann í bifreið lögreglu, sem er ómerkt lögreglubifreið, sem þeir áttu óuppgerðar sakir við. Skemmdirnar á bifreiðinni voru unnar af þeim sökum.
Mál þetta telst upplýst og mun fljótlega sent ákæruvaldi til ákvörðunar.