24 Apríl 2013 12:00

Glæsilegur hópur ungmenna setti skemmtilegan svip á miðborgina í hádeginu, en nærstaddir höfðu á orði að gaman væri að mæta svona skemmtilegum og líflegum vegfarendum. Þarna voru á ferð nemendur á öðru ári í Verzlunarskóla Íslands, sem gengu prúðbúnir á Ingólfstorg og stigu dans, sjálfum sér og öðrum til gleði. Uppákoman er hluti af svokölluðum peysufatadegi, sem löng hefð er fyrir, en þá taka nemendur 4. bekkjar sér frí frá námsbókunum og arka í bæinn. Lögreglan var á staðnum og fylgdist með þessum fyrirmyndar ungmennum, en á meðal þeirra sem stigu dans á Ingólfstorgi voru þau Andrea, Arnór og Ilmur.