24 Ágúst 2006 12:00
Þrátt fyrir miklar umræður um hraðakstur að undanförnu eru sumir ökumenn sem láta sér fátt um finnast. Þeir taka hvorki tillit til annarra né virða hámarkshraða. Dæmi um það eru þrír ökumenn sem lögreglan í Reykjavík tók fyrir hraðakstur í gær. Mennirnir, sem eru á þrítugsaldri, óku allir á meira en tvöföldum leyfilegum hámarkshraða.
Þessa vikuna hefur lögreglan beint sjónum sínum í auknu mæli að umferð við grunnskóla borgarinnar. Við suma þeirra er ágætt ástand og ökumenn hægja á sér eins og vera ber. En því miður er það ekki raunin alls staðar eins og sýndi sig fyrr í dag. Myndavélabíll lögreglunnar var þá staðsettur beint fyrir utan fjölmennan grunnskóla. Þar er 30 km hámarkshraði sem margir virtu að vettugi. Brot á fjórða tug ökumanna voru mynduð en allmargir óku á yfir 50 km hraða. Einn ók á 60 km hraða en lögreglan fordæmir slíkt.