29 Mars 2024 13:42
Páskarnir fóru ekki vel af stað hjá borgaranum sem týndi skíðunum sínum í umferðinni í gær. Sá var miður sín og leitaði því til lögreglunnar um aðstoð. Fengnar voru upplýsingar um hvar líklegast var að skíðin hefðu dottið af bifreið viðkomandi og síðan var haldið af stað til leitar. Hún gekk ótrúlega vel fyrir sig og fundust skíðin óskemmd við eina fjölförnustu umferðargötu landsins. Í framhaldinu var þeim komið aftur í réttar hendur, en síðast þegar við vissum var eigandinn kominn með skíðin sín norður í land. Þar er hinn sami væntanlega sæll og glaður að skíða í brekkunum sér til ánægju og yndis.
Þótt hér hafi allt farið vel, og hvorki hlotist af slys eða skemmdir, minnum við samt alla ferðalanga á að ganga tryggilega frá þeim búnaði sem ferðast er með svo ekkert af honum týnist nú í umferðinni eða annars staðar.