2 Mars 2007 12:00

Talsverð ölvun var á tveimur skólaböllum framhaldsskólanema sem haldin voru í Reykjavík í gærkvöld. Hringt var í foreldra nokkurra unglinga og þeim gert að sækja börn sín. Eitthvað var um pústra á böllunum en á öðru þeirra voru tveir piltar, 16 og 17 ára, handteknir og fluttir á lögreglustöð. Báðir voru ölvaðir og létu mjög ófriðlega. Haft var samband við foreldra þeirra og kom faðir þess eldri fljótlega og sótti son sinn. Var honum nokkuð brugðið að sjá ástandið á syninum og íhugaði alvarlega að skilja hann eftir og láta hann sofa úr sér áfengisvímuna í fangaklefa en til þess kom þó ekki. Móðir yngri piltsins kom nokkru síðar og var henni líka brugðið. Hún taldi það syni sínum hins vegar fyrir bestu að hann yrði látinn sofa úr sér áfengisvímuna í vörslu lögreglunnar. Hélt hún því á brott en sonurinn varð eftir. Honum var síðan sleppt úr haldi í morgun.