31 Janúar 2020 15:44

Fjórir voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 7. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á skipulagðri brotastarfsemi, sem snýr m.a. að framleiðslu fíkniefna og peningaþvætti. Fjórmenningarnir voru handteknir um þar síðustu helgi samhliða mjög umfangsmiklum aðgerðum lögreglu, en ráðist var í húsleitir víða á höfuðborgarsvæðinu. Lagt var hald á fíkniefni, vopn og fjármuni. Tveir til viðbótar sátu í gæsluvarðhaldi í tengslum við málið, en ekki var lögð fram krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þeim.

Rannsókninni miðar ágætlega, en ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.