13 Apríl 2018 15:32

Lögreglan stöðvaði kannabisræktun í heimahúsi á Suðurlandi fyrr í vikunni og lagði hald á vel á fjórða hundrað kannabisplantna og á annan tug kílóa af kannabislaufum, en lögregluaðgerðin var hluti af rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi, sem staðið hefur yfir um nokkurt skeið. Á vettvangi var enn fremur lagt hald á verulega fjármuni, en einn maður var handtekinn á staðnum. Þrír til viðbótar voru svo handteknir annars staðar á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Áður hafði lögreglan lagt hald á 1,5 kg af kannabisefnum og nokkuð af e-töflum og kókaíni við húsleit í skrifstofurými í Hafnarfirði í máli sem tengist áðurnefndri rannsókn, en þar var einn handtekinn. Þrír hinna handteknu í þessum málum eru erlendir ríkisborgarar. Að aðgerðunum komu lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi og embætti ríkislögreglustjóra, en rannsókn málsins er jafnframt unnin í samvinnu við tollyfirvöld, pólsku lögregluna, m.a. Asset Recovery Office í Varsjá, og Europol.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðum lögregluembættanna.