9 Júlí 2019 11:46

Tveir voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögregluliðanna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og tollyfirvalda gegn innflutningi og sölu á ólöglegum lyfjum og sterum á fyrri hluta ársins, eða frá miðjum janúar og fram í byrjun maí, en samtals var lagt hald á 1.100 ambúlur og 11.565 steratöflur.  Málið er hluti af aðgerðum sem tengjast Europol, en á fyrrnefndu tímabili var lagt hald á mikið magn af lyfjum og sterum í fjölmörgum löndum eins og lesa má um í fréttatilkynningu Evrópulögreglunnar hér neðst á síðunni.

Hér heima voru stöðvaðar sendingar sem reynt var smygla til landsins með flugi og í pósti, en alls var um ellefu tilvik að ræða.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í baráttu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Heimasíða Europol