19 Janúar 2020 21:08

Sex manns voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í gæsluvarðhald, fimm þeirra til 31. janúar og einn til 27. janúar, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á skipulagðri brotastarfsemi, sem snýr m.a. að framleiðslu fíkniefna og peningaþvætti. Sexmenningarnir voru handteknir sl. sólarhring samhliða mjög umfangsmiklum aðgerðum lögreglu, en ráðist var í húsleitir víða á höfuðborgarsvæðinu. Lagt var hald á fíkniefni, vopn og fjármuni.

Engar frekari upplýsingar verða veittar um málið að svo stöddu.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.