4 Desember 2020 15:16

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar umfangsmikið mál sem snýr að framleiðslu fíkniefna og sölu þess, en talið er að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða. Í gær voru fimm handteknir í þágu málsins og nokkrir til viðbótar hafa réttarstöðu sakbornings, en þrír hinna handteknu hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 15. desember á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Vegna rannsóknarinnar voru framkvæmdar á annan tug húsleita á höfuðborgarsvæðinu, en lagt var hald á ætluð fíkniefni, fjármuni og ýmsan búnað sem tengist starfseminni. Við rannsóknina og aðgerðirnar, sem er liður í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi, hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu notið liðsinnis lögreglunnar á Suðurnesjum og embætta ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara, auk aðstoðar pólskra lögregluyfirvalda og Europol.

Frekari upplýsingar um málið verða ekki veittar að svo stöddu.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.