18 Desember 2017 22:17

Lögreglu- og tollayfirvöld boðuðu í dag til blaðamannafundar vegna rannsóknar á grunsemdum um skipulagða brotastarfsemi hér á landi sem jafnframt teygir anga sína til Póllands og Hollands. Um er að ræða samstarfsverkefni ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, Héraðssaksóknara og tollstjóra í samstarfi við pólsk og hollensk yfirvöld svo og evrópustofnanirnar Europol og Eurojust.

Hinn 12. desember sl. kl. sex árdegis, að íslenskum tíma, fóru fram í löndunum þremur samræmdar aðgerðir í tengslum við rannsóknina. Vegna aðgerða hér á landi komu til landsins og aðstoðuðu íslensk lögreglu- og tollyfirvöld tveir pólskir lögreglumenn og einn starfsmaður Europol. Þá var fulltrúi Íslands í aðgerðarstöð vegna aðgerðanna hjá Eurojust og íslenskur lögreglumaður aðstoðaði hollensk yfirvöld við húsleitir í Hollandi.

Í aðgerðunum hér á landi voru fimm menn handteknir og þrír þeirra úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þá voru eignir að verðmæti nærri 200 m.kr. haldlagðar og kyrrsettar. Samtals tóku þátt í aðgerðunum hér á landi yfir níutíu starfsmenn lögreglu og tollgæslu. Á þeim tíma sem rannsóknin hefur staðið yfir hér á landi hafa verið til rannsóknar nokkur mál er varða innflutning á fíkniefnum til landsins. Í tengslum við þau mál hafa verið handteknir nokkrir pólskir ríkisborgarar.

Sjá einnig umfjöllun um aðgerðirnar á heimasíðu Europol:

https://www.europol.europa.eu/newsroom/news/international-criminal-network-involved-in-synthetic-drug-trafficking-dismantled