28 Júní 2013 12:00

Verkefni lögreglunnar eru æði fjölbreytt og margt getur gerst á vaktinni. Þannig var því einmitt farið í nótt, en þá var óskað eftir lögregluaðstoð að húsi í Fossvoginum. Þar hafði skógarþröstur gert sig heimkominn í óþökk húsfreyjunnar, sem gerði sitt ítrasta til að koma hinum óboðna gesti út úr húsinu. Hún hafði ekki erindi sem erfiði og engu breytti þótt nágrannarnir kæmu konunni til hjálpar. Hringt var í lögregluna sem brást skjótt við og sendi tvo þrautþjálfaða lögreglumenn á vettvang. Fuglinn var að finna í skorsteininum, en þangað hafði hann flögrað niður og sýndi ekki á sér neitt fararsnið. Þrösturinn virtist ekki áhugasamur um að fara lengra niður og inn í íbúðina og var það bót í máli. Staðan var hins vegar alvarleg og ljóst að ekki yrði hægt að kveikja upp í arninum á þessu heimili ef fuglinn tæki sér bólfestu í skorsteininum. Til þess kom þó ekki því samræmdar aðgerðir á vettvangi leiddu til þess að skógarþrösturinn var losaður úr prísundinni og virtist hann vera frelsinu feginn. Húsfreyjan var lögreglunni afar þakklát fyrir aðstoðina og væntanlega hefur henni, sem og öðrum heimilismönnum, verið létt þegar hægt var að ganga aftur til náða.