10 Febrúar 2022 11:11

Karlmaður á þrítugsaldri er í haldi lögreglu eftir að tilkynnt var um skotárás í Grafarholti á fjórða tímanum í nótt. Skotið var á karl og konu sem voru stödd utandyra í hverfinu. Þau voru flutt á slysadeild þar sem gert var að sárum þeirra, en eru ekki í lífshættu. Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna málsins og var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til, en hún handtók fyrrnefndan karlmann miðsvæðis í borginni fyrr í morgun. Rannsókn málsins er á frumstigi. 

Viðbúið er að mál sem þetta valdi óhug hjá fólki, en lögreglan vill taka fram að hún telur engu að síður að almenningi sé ekki hætta búin vegna þessa. Heldur að hér sé um að ræða einstakt mál. 

Engar frekari upplýsingar um málið er hægt að veita að svo stöddu, en búast má við fréttatilkynningu frá lögreglu síðar í dag.