25 Desember 2010 12:00

Fjórir karlar hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 4. janúar að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn hennar á skotárás í Háaleitishverfinu á aðfangadag. Það var um hádegisbil í gær sem fjórmenningarnir komu að húsi í fyrrnefndu hverfi og virtust þeir eiga eitthvað vantalað við húsráðandann. Atburðarásin liggur ekki alveg fyrir en þó er ljóst að skotið var á húsið því á vettvangi mátti sjá að hleypt hafði verið af haglabyssu en ummerki þess voru greinileg á útidyrahurð. Engan sakaði og voru árásarmennirnir handteknir þegar þeir reyndu að komast undan. Þá var lagt hald á haglabyssu sem fannst á vettvangi. Fjórmenningarnir, sem eru á þrítugs- og fertugsaldri, hafa allir áður komið við sögu hjá lögreglu.