27 Desember 2023 18:44
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar skotárás í Hafnarfirði á aðfangadag eins og fram hefur komið, en tilkynning um málið barst kl. 22.06 á aðfangadagskvöld. Tveir menn fóru þá inn í íbúð í Álfholti og hleyptu af nokkrum skotum, en mikil mildi þykir að enginn slasaðist.
Vegna málsins biðlar lögregla enn fremur til bæði íbúa og forráðamanna fyrirtækja á Hvaleyrarholti að athuga með myndefni í öryggis- og eftirlitsmyndavélum á svæðinu og koma því til lögreglu ef svo ber undir. Um er að ræða tímann frá kl. 21.30 – 22.30 á aðfangadagskvöld, en í þágu rannsóknarinnar er verið að leita upplýsinga um grunsamlegar mannaferðir. Upplýsingum um málið, ef einhver býr yfir slíku, má sömuleiðis koma á framfæri í tölvupósti á netfangið r2a@lrh.is
Rannsókn málsins er í fullum gangi og er einn í haldi lögreglu vegna hennar, en sá var handtekinn fyrr í dag.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.