13 Febrúar 2022 09:47

Þrír karlar eru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að tilkynning barst um skotárás utan dyra í miðborginni um eittleytið í nótt. Sá sem fyrir henni varð tilkynnt sjálfur um árásina, en viðkomandi var fluttur á slysadeild, gekkst þar undir aðgerð og er ekki í lífshættu. Mikill viðbúnaður var vegna málsins, en mennirnir þrír, sem áður voru nefndir, voru handteknir fljótlega eftir að rannsóknin hófst. Lagt hefur verið hald skotvopn og bifreið í þágu rannsóknarinnar. Við aðgerðirnar í nótt naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, en búast má við annarri fréttatilkynningu frá lögreglu eftir því sem rannsókn málsins vindur fram.